Erlent

Ný stjórn mynduð í Írak

Stjórnlagaþing Íraka samþykkti í gær ráðherralista al-Jaafari forsætisráðherra. Þar með hafa Írakar eignast sína fyrstu lýðræðislegu kjörnu ríkisstjórn í hartnær hálfa öld. Frá því að Írakar gengu að kjörborðinu í janúarlok hefur gengið afleitlega að mynda nýja ríkisstjórn. Atburðarásin hefur hins vegar verið hröð síðustu daga eftir að Ibrahim al-Jaafari tilkynnti á þriðjudaginn að honum hefði tekist að setja saman ráðherralista. Jalal Talabani forseti lagði blessun sína yfir tillögu al-Jaafari í gær og síðan greiddi þingið atkvæði um listann. 180 af þeim 185 þingmönnum sem voru viðstaddir studdu listann en níutíu þingmenn voru fjarverandi. "Þetta er fyrsta skrefið í átt að nýju Írak," sagði al-Jaafari eftir atkvæðagreiðsluna í gær, glaður í bragði. Sautján sjíar sitja í stjórninni, átta Kúrdar, sex súnníar og einn kristinn maður. Sex ráðherranna eru konur. Stjórnin mun taka við völdum af bráðabirgðastjórn Allawi eftir nokkra daga. Ekki er þó kálið sopið þótt í ausuna sé komið. Enn á eftir að manna tvö embætti og sum ráðuneytin eru í höndum settra ráðherra. Þannig hefur al-Jaafari sjálfur tekið að sér embætti varnarmálaráðherra, stöðu sem hafði verið eyrnamerkt súnníum, og Ahmed Chalabi, einn varaforsætisráðherranna, gegnir jafnframt embætti olíumálaráðherra. Ekki verður séð að súnníum hafi verið tryggð völd í samræmi við fjölda þeirra og sú staðreynd mun eflaust verða olía á eld uppreisnarmanna. Ghazi al-Yawher, varaforseti og súnníi, gat ekki leynt gremju sinni yfir hversu fáa trúbræður hans var að finna í stjórninni. Hvað sem stjórnarmynduninni líður þá heldur vargöldin í landinu áfram. Ráðist var inn á heimili íraskrar þingkonu í Bagdad á þriðjudagskvöldið og hún skotin til bana. Í bænum Musayyib reyndu uppreisnarmenn að varpa sprengjum að bandarískri herstöð en ekki vildi betur til en svo að þær lentu á strætisvagnabiðstöð. Fjórir Írakar dóu og 21 særðist.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×