Erlent

Handbók í yfirheyrslum undirbúin

Bandaríkjaher vinnur nú að nýrri handbók um yfirheyrslutækni þar sem fortakslaust bann er lagt við ýmsum þeirra aðferða sem fangar í Abu Ghraib-fangelsinu í Írak voru beittir. Að sögn dagblaðsins The New York Times er um umfangsmestu endurskoðun handbókarinnar í 13 ár að ræða og hefur skýrt bann verið lagt við ýmsum illræmdum yfirheyrsluaðferðum. Bannað verður að afklæða fanga og láta þá standa upprétta tímunum saman, hvorki má svelta þá né svipta svefni og enn fremur er óheimilt að hræða þá með geltandi hundum. Í gömlu handbókinni sem var í gildi þegar misþyrmingarnar í Abu Ghraib áttu sér stað voru þessar aðferðir ekki beinlínis heimilaðar en engar takmarkanir voru heldur lagðar við þeim. Talsmaður hersins segir að nýja handbókin sé í fullu samræmi við ákvæði Genfarsáttmálans. Hins vegar rýrir það gildi bókarinnar nokkuð að þeir einu sem eru bundnir af henni eru starfsmenn Bandaríkjahers. Leyniþjónustumenn CIA geta til dæmis áfram beitt þeim aðferðum sem þeim hentar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×