Erlent

Ekki sammála um niðurstöðu

Fulltrúar ítalskra og bandarískra yfirvalda, sem rannsökuðu lát ítalska leyniþjónustumannsins Nicola Caliparis sem skotinn var í Írak í byrjun síðasta mánaðar, komust ekki að sameiginlegri niðurstöðu. Þetta kemur fram í yfirlýsingu beggja aðila sem bandaríska utanríkisráðuneytið sendi frá sér í dag. Rannsóknarmönnunum var falið að kanna hvort bandarískir hermenn hefðu gerst brotlegir þegar þeir skutu á bíl sem Calipari var farþegi í ásamt ítölsku blaðakonunni Giuliönu Sgrena sem ítalskir leyniþjónustumenn voru nýbúnir að frelsa úr gíslingu. Calipari lést þegar hann kastaði sér yfir Sgrena til að hlífa henni við kúlnahríðinni. Samkvæmt fyrstu niðurstöðum, sem lekið var í fjölmiðla fyrr í vikunni, var talið að hermennirnir hefðu aðeins fylgt bardagareglum og því lagt til að þeim yrði ekki refsað. Sú niðurstaða olli mikilli reiði á á Ítalíu og kallaði stjórnarandstaðan hana móðgun við Ítali. Í yfirlýsingunni sem send var út í dag kom fram að rannsókninni væri lokið en ekkert var gefið upp um endanlega niðurstöðu. Hins vegar var sagt að fulltrúar hvorrar þjóðar í rannsóknarnefndinni hefðu greint yfirvöldum í sínum löndum frá niðurstöðunni. Þegar málið kom upp olli það nokkurri spennu milli þjóðanna og þær hafa síðan deilt um atburðarásina þann 4. mars þegar Calipari var skotinn til bana. Bandaríkjamenn halda því fram að bíll Caliparis og Sgrena hafi nálgast varðstöð Bandaríkjanna á fullri ferð og að allar viðvaranir hafi verið virtar að vettugi en Ítalir segja bílinn hafa verið stöðvaðan samkvæmt fyrirmælum bandarísku hermannanna sem síðan hafi hafið skothríð á hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×