Erlent

Utangarðsmenn gegn leiðindunum

Þingkosningar fara fram í Bretlandi á fimmtudaginn. Mörgum hefur þó þótt skorta á spennu í kosningabaráttuna enda benda allar skoðanakannanir til að Verkamannaflokkur Blairs forsætisráðherra fái endurnýjað umboð til að halda um stjórnartaumana þriðja kjörtímabilið í röð. Þeim til upplyftingar sem þykir svo spennulaus kosningabarátta leiðinleg vill til að upp á hana lífga menn eins og "gólandi lávarðurinn" Alan Hope, Biro lávarður og Kapteinn Beany. Allt í allt eru um 3500 manns í framboði fyrir fleiri en 100 flokka í hinum 646 kjördæmum Stóra-Bretlands. Þessir frambjóðendur spanna allt litróf stjórnmálanna, frá harðlínukommum til hægriöfgamanna. Sumir vonast til að athyglin sem þeir fá sem frambjóðendur nýtist til að vekja athygli á einstökum málum, svo sem Íraksstríðinu eða að hassneysla verði gerð lögleg. Aðrir eru einfaldlega sérvitringar: Flokkur herskáu Elvis-kirkjunnar og Nýi þúsaldar-baunaflokkurinn eru dæmi um slík framboð. "Ég veit að ég mun ekki sigra," segir Alan "gólandi lávarður" Hope, glaðsinna leiðtogi Opinbera skrímslis-hringlandi-brjálæðinga-flokksins (The Official Monster Raving Loony Party). "Allt sem ég vil er að fá kannski fimm til sex þúsund atkvæði, bara til að koma hinum flokkunum til að hugsa: hvað erum við að gera rangt?" Flokkur Hopes hefur verið kallaður "guðfaðir" slíkra sprellframboða í Bretlandi enda stofnaður fyrir 41 ári. Kosningamottó hans hefur frá upphafi verið "Kjósið brjálað; þið vitið að það er það eina sem vit er í". Sporgönguflokkarnir eru nú orðnir margir. Þar á meðal er Nýi þúsaldar-baunaflokkurinn, en fyrir honum fer Kapteinn Beany, sjálfskipuð ofurhetja sem baðar sig í bökuðum baunum - og Flokkur herskáu Elvis-kirkjunnar, sem Biro lávarður, einlægur aðdáandi rokkkóngsins, fer fyrir. Flokkur Biros berst meðal annars fyrir því að bannað verði að auglýsa ruslfæði í skólum og á sjúkrahúsum, vegna þess að "Elvis var fíkinn í ruslfæði og við vitum öll hvað það gerði honum".



Fleiri fréttir

Sjá meira


×