Erlent

Minntust loka Víetnamstríðs

Þrjátíu ár eru liðin frá lokum Víetnamstríðsins og þess var minnst í dag. Fjöldi bandarískra hermanna er af því tilefni í Víetnam. Hersveitir voru á ný á ferð um stræti borgarinnar sem í þrjátíu ár hefur heitið Ho Chi Minh borg. Árið 1975 hét hún Saigon og Víetnamstríðinu var að ljúka. Í dag minntust hermennirnir sem þar börðust saman fallinna. Einn þeirra er Dan Scruggs sem kemur nokkrum sinnum á ári til að stjórna jarðsprengjuleit. Hann segir að með hverju árinu sem líði batni ástandið í landinu. Tilefnið nú sé mjög sérstakt og að töfrar og nostalgía sé í loftinu fyrir þá bandarísku blaðamenn og fyrrverandi hermenn sem séu í landinu. Hið sama gildi að sjálfsögðu fyrir Víetnama, en þeir hafi verið einstaklega gestrisnir og indælir hvert sem hann hafi farið, ekki síst þeir fyrrverandi hermenn sem bandarískir hermenn hafi barist við á sínum tíma. Þeir vilji leita vináttubanda.  Scruggs er einn þeirra hermanna sem komust lifandi heim, en annarra er enn þann dag í dag saknað. Randy Ard var skotinn niður yfir frumskógum Víetnams árið 1971 og fjölskylda hans vonaði alltaf að hann fyndist. Emmie, móðir hans, og Nell, systir hans, segja að þær hafi þurft að vita hvað hefði orðið um hann en þær hafi lengi haldið að að þær fengju aldrei að vita það. Hins vegar hafi þær á endanum fengið fréttir af honum. Lík Randys fannst í Laos. Nell segir að hann sé enn með fjölskyldunni og þær geti sýnt honum að þeim þyki enn vænt um hann og að þær hugsi enn um hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×