Sport

Phoenix 0 - San Antonio 1

Phoenix Suns eru með öflugasta sóknarliðið í NBA deildinni, en San Antonio Spurs sýndu styrk sinn í fyrsta leik liðanna í gærkvöldi og sigruðu Suns, 121-114 á þeirra eigin heimavelli með því að sýna hvers besta varnarlið deildarinnar var megnugt hinumegin á vellinum. Spurs skoruðu 43 stig og hittu 16 af 22 skotum sínum í fjórða leikhlutanum í gær, eftir að Phoenix hafði unnið upp forystu þeirra í þriðja leikhluta og komist yfir. Gregg Popovich, þjálfari Spurs sagði fyrir leikinn að menn skyldu ekki vanmeta sína menn sóknarlega þó þeir væru með bestu vörnina í deildinni og leikmenn hans sýndu af hverju í gær. "Maður verður að skora dálítið mikið af stigum til að vinna þetta lið, því við höldum þeim aldrei í 82 stigum," sagði Popovich eftir leikinn, en 43 stig hans manna í fjórða leikhlutanum var það mesta hjá liðinu í vetur. "Þetta var nú ekki leikhluti eins og við bjuggumst við í svona leik, en við tækjum því á hverjum degi. Við erum ekkert að tapa okkur af gleði yfir að stela þessum leik hérna og ætlum að reyna að vinna næsta líka, það myndi virkilega slá þá út af laginu" sagði Tim Duncan hjá San Antonio sem var að leika meiddur á ökkla en lét það ekki á sig fá. Vonsviknir aðdáendur Phoenix horfðu upp á átta stiga forystu liðsins renna út í sandinn og eftir að Spurs tóku mikla rispu í fjórða leikhlutanum, komust Suns aldrei nær en sex stig eftir það. Sjá mátti áhorfendur ganga út úr húsinu skömmu fyrir leikslok, því þeir horfðu upp á lið sitt tapa illa á heimavelli og eru í fyrsta skipti í úrslitum vesturstrandarinnar síðan 1993. "Ég vil nú eiginlega skrifa þetta tap á andlega þreytu hjá okkur. Við virtumst ekki geta haldið dampi þegar við vorum að vinna upp forskot þeirra og töpuðum leiknum. Við höfum engar afsakanir," sagði Steve Nash hjá Phoenix. "Þeir bara flengdu okkur. Það er hlutur sem lið með meistarareynslu gera og þeir gerðu það við okkur í kvöld. Þeir flengdu okkur," sagði Jimmy Jackson, leikmaður Phoenix. Það er að sumu leiti rétt, því menn eins og Quentin Richardson og Shawn Marion náðu sér aldrei á strik í gær og ef ekki hefði verið fyrir enn einn stórleikinn frá Steve Nash og Amare Stoudemire, hefði farið enn verr fyrir liðið. Næsti leikur liðanna verður einnig í Phoenix og verður í beinni útsendingu á Sýn á þriðjudagskvöldið klukkan eitt eftir miðnætti.Atkvæðamestir í liði Phoenix:Amare Stoudemire 41 stig (9 frák), Steve Nash 29 stig (13 stoðs), Jimmy Jackson 20 stig (8 frák), Steven Hunter 9 stig (8 frák), Quentin Richardson 7 stig, Leandro Barbosa 5 stig, Shawn Marion 3 stig.Atkvæðamestir hjá San Antonio:Tony Parker 29 stig (7 stoðs), Tim Duncan 28 stig (15 frák), Brent Barry 21 stig, Manu Ginobili 20 stig (6 frák, 5 stoðs), Robert Horry 12 stig (7 frák), Nazr Mohammed 9 stig (7 frák). 
NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×