Sport

Carvalho biður Mourinho afsökunar

Ricardo Carvalho varnarmaður Chelsea hefur beðið Jose Mourinho afsökunar á ummælum sínum eftir leikinn gegn Wigan í úrvalsdeildinni um helgina. Þrátt fyrir afsökunarbeiðnina er reiknað með því að hann verði sektaður um tveggja vikna laun. Carvalho var allt annað en sáttur við að hafa þurft að verma varamannabekkinn og lét Mourinho heyra það í fjölmiðlum. Hann sagðist ekkert botna í því að vera ekki byrjunarliðinu. "Ég skil ekki hvernig hægt er að láta mig  í sama flokk og leikmenn eins og Robert Huth, Joe Cole og Tiago," sagði Carvalho. Mourinho svaraði síðan fullum hálsi. "Carvalho ætti að fara í gáfnapróf, því hann virðist svo sannarlega ekki átta sig á því hvernig hlutirnir ganga fyrir sig hérna. Ég var mjög vonsvikinn að lesa um óánægju hans í blöðunum og kannski þarf Carvalho bara að leita læknis," sagði Mourinho. Í yfirlýsingu sem Carvalho sendi svo frá sér í dag segist hann sjá eftir þessum ummælum sínum og biðst afsökunar. "Eins og allir fótboltamenn þá vil ég fá að spila sem mest og var mjög svekktur yfir því að vera ekki í byrjunarliðinu. Ég sé eftir því sem ég sagði og geri mér grein fyrir þeirri samkeppni sem er hjá félaginu. Ég þarf bara að leggja harðar að mér á æfingasvæðinu," sagði Carvalho.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×