Sport

Skjern vann sigur á Barcelona

Danska handknattleiksliðið Skjern, sem Vignir Svavarsson, Vilhjálmur Halldórsson og Jón Jóhannesson leika með og Aron Kristjánsson þjálfar, bar sigurorð af spænsku Evrópumeisturunum Barcelona í æfingleik á sunnudagskvöldinu með einu marki, 29 - 28. Vignir skoraði fimm mörk, Vilhjálmur tvö og Jón eitt. 2000 manns mættu á völlinn og var húsfyllir. Skjern varð fyrir mikilli blóðtöku þegar Finninn Patrik Westerholm sleit hásinina og verður frá í níu mánuði. "Þetta er mikill missir fyrir okkur því hann er mjög góður og meiðslavandræðin hægra megin halda áfram " sagði Vignir í samtali við Fréttablaðið en nú eru allar skytturnar þar meiddar. "Ég hef boðist til þess að leysa þessa stöðu," bætti hann við í léttum dúr en fékk víst ekki miklar undirtektir. Sjálfur var Vignir nokkuð sáttur við sitt og sagðist vera búinn að koma sér vel fyrir í þessum litla bæ. "Ég er að komast í betra form en ég hef áður verið. Er búinn að vera lyfta markvisst í fyrsta skipti á ævinni og við erum búnir hlaupa og æfa mjög vel," sagði hann sem kann greinilega vel við sig á móti Barcelona en hann var einmitt í liði Hauka sem gerði jafntefli við þá í meistaradeildinni fyrir tæpum tveimur árum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×