Erlent

Harðvítugar deilur um stjórnarskrá

Harðvítugar deilur standa um stjórnarskrá Íraks en drög að henni voru lögð fram í gærkvöldi. Til stendur að þingið samþykki stjórnarskrána á næstu dögum þrátt fyrir mótmæli og hótanir um borgarastríð. Allt bendir til þess að ríkisstjórn Íraks með sjíta í broddi fylkingar þvingi stjórnarskrána í gegnum þingið þrátt fyrir andstöðu súnníta sem hóta öllu illu. Sjítar og Kúrdar náðu samkomulagi um málamiðlunartillögu sem báðir hóparnir geta lifað með, enda skipta þeir á milli sín olíulindunum í suðri og norðri. Sjítar kveðast hvorki sjá tilgang né hag í að koma til móts við athugasemdir súnníta enda séu fulltrúar þeirra í stjórnarskrárnefndinni ekki fulltrúar meirihlutans og því sé réttast að þingið samþykki stjórnarskránna og hún verði lögð í dóm almennings í kosningu. Hugsanlega mætti gera einhverjar minniháttar breytingar, en ekki meira. Súnnítum gremst skipting auðlindanna og að Írak verði sambandsríki, en þeir telja það í raun fyrsta skrefið í átt að því að kljúfa landið. Fulltrúar þeirra telja víst að uppnám verði á götum borga og bæja verði stjórnarskráin samþykkt á þingi. Þeir hóta því að berjast gegn henni með öllum ráðum og fá hana fellda í þjóðaratkvæðagreiðslu. Telja verður nokkrar líkur á að það gæti tekist, því að tveir þriðju hlutar kjósenda í þremur af átján héruðum Íraks verða að hafna stjórnarskránni til að hún verði felld. Talið er hugsanlegt að kjósendum í borgunum Mósúl, Tíkrít og Ramadi hugnist stjórnarskráin lítt. Við þetta bætist andstaða sumra leiðtoga Sjíta, eins og harðlínuklerksins Múkktada al-Sadrs, sem er með öllu mótfallinn sambandsríki í Írak, og fyrrverandi bráðabirgðarforsætisráðherrans Iyads Allawis, sem hugnast ekki hvernig stjórnarskráin er þvinguð gegnum þingið. Almenningur gæti einnig notað þjóðaratkvæðagreiðslu til að refsa stjórnvöldum, sem hefur hvorki tekist að tryggja öryggi né bæta lífsgæði fólks frá því að ríkisstjórnin tók við völdum fyrr á þessu ári. Til stendur að þingið ljúki umfjöllun um stjórnarskránna innan þriggja daga og að þjóðaratkvæðagreiðsla fari fram í október hið síðasta.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×