Erlent

Brottflutningnum lokið

Sögulegum brottflutningi ísraelskra landtökumanna af svæðum Palestínumanna lauk í gær þegar tvær byggðir á Vesturbakkanum voru rýmdar. Flutningarnir tóku aðeins fjórðung af þeim tíma sem upphaflega var búist við og átök vegna þeirra urðu mun minni en óttast var. Í gær réðust 6.000 ísraelskir hermenn inn í tvær landnemabyggðir á Vesturbakkanum, Sanur og Homesh, en vitað var þar hefðu um 1.600 manns hreiðrað um sig til að mótmæla rýmingunni. Vesturbakkinn hefur mun meira sögulegt og trúarlegt gildi í augum gyðinga en Gaza-ströndin og því var búist við heiftúðugum átökum á milli hermanna og öfgaþjóðernissinna. Fyrst í stað sýndu mótmælendurnir raunar nokkurt viðnám en þeir máttu sín lítils gegn fílefldum hermönnunum. Níu klukkustundum eftir að hermenn réðust til inngöngu höfðu allir mótmælendurnir verið fjarlægðir. Íbúar Ganim og Kadim, hinna landnemabyggðanna tveggja sem rýma átti á Vesturbakkanum, höfðu þegar haft sig á brott og því var þegar hafist handa við að rífa hús í báðum kjörnunum í gær. Þar með hefur rýming byggðanna 25 aðeins tekið eina viku en reiknað var með að aðgerðirnar stæðu yfir í heilan mánuð hið minnsta. Mahmoud Abbas, forseti palestínsku heimastjórnarinnar, hringdi í Ariel Sharon, forsætisráðherra Ísraels, í gær og óskaði honum til hamingju með "hugrakka og sögulega ákvörðun. Abbas stakk upp á að friðarviðræðurnar yrðu teknar fljótlega upp að nýju og varð leiðtogunum að samkomulagi að hittast við fyrsta tækifæri. Landnemabyggðirnar fjórar eru aðeins brot af hverfum Ísraela á Vesturbakkanum en þar búa alls 240.000 Ísraelsmenn. Margir álíta að með rýmingu byggðanna á Gaza og þessara fjögurra á Vesturbakkanum ætli ísraelska ríkisstjórnin að herða enn frekar tökin á þeim svæðum sem Ísaelar byggja á þessum slóðum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×