Erlent

Kynjaaðskilnaður í strætó

Kanó er eitt af tólf ríkjum landsins þar sem íslömsk lög eru við lýði. Ríkisstjórninni finnst frjálsræðið orðið heldur mikið og ætlar að innleiða sharia-lög sem byggð eru á kenningum Kóransins, að því er Washington Post skýrir frá. Fyrsta skrefið í átt til sharia verður að aðskilja kynin í strætisvögnum borgarinnar og skipa konum að setjast aðeins í tilgreind sæti aftast í vögnunum. Einnig verður konum bannað að taka sér far með nær öllum leigubifhjólum borgarinnar. Aðeins fáein bifhjól í borginni munu standa konum til boða. Ástæðan fyrir aðskilnaðinum í strætisvögnunum er sögð sú að karlmenn eru farnir að sýna konum æ ósæmilegri hegðun. Washington Post hefur eftir kvenfarþegum að karlmenn séu farnir að nudda sér upp við konur í strætisvögnunum og segja hluti sem þeir hefðu ekki dirfst að segja fyrir nokkrum árum. Þær séu banninu fegnastar því þá fái þær frið fyrir karlmönnunum. Ekki eru allar konur þessu sammála og segja að bannið geri þeim erfiðara fyrir að komast á milli staða.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×