Norski framherjinn Ole Gunnar Solskær verður í hópnum með varaliði Manchester United á mánudaginn þegar liðið mætir varaliði Liverpool. Þetta verður að teljast vægast sagt undarlegt á miðað við fréttir af slæmu ásigkomulagi leikmannsins fyrir örfáum dögum.
Alex Ferguson, stjóri United, lét í veðri vaka fyrir nokkrum dögum að hann óttaðist að ferlill Norðmannsins væri á enda runninn vegna þrálátra hnémeiðsla, en í dag virðist staðan skyndilega vera allt önnur.
"Ég hélt að meiðslin væru það alvarleg að útlitið væri mjög dökkt hjá honum, en ég sá hann á æfingu með aðalliðinu á þriðjudaginn og þar var hann frábær. Ég er sannarlega mjög ánægður með þessi tíðindi og vona að hann nái að koma til baka," sagði Ferguson.