Houston Rockets vann fimmta leik sinn í röð í nótt þegar liðið skellti Seattle á útivelli, en allt annar bragur hefur verið á liðinu síðan Tracy McGrady sneri aftur úr meiðslum. Þá vann Cleveland góðan sigur á Denver og meistarar San Antonio unnu nauman sigur á Minnesota.
Cleveland vann Denver á heimavelli 94-85. LeBron James skoraði 26 stig fyrir Cleveland og átti 9 stoðsendingar, en Carmelo Anthony skoraði 23 stig fyrir Denver.
San Antonio lagði Minnesota 90-88 á útivelli, þar sem Michael Finley var stigahæstur í liði meistaranna með 21 stig, en Kevin Garnett skoraði 24 stig og hirti 21 frákast hjá Minnesota.
Loks lagði Houston Seattle á útivelli 104-98. Tracy McGrady skoraði 34 stig fyrir Houston, en Ray Allen setti 30 fyrir Seattle.