Sport

Vonandi ekki síðasti leikurinn

„Ég var búinn að plana það að skora tíunda landsliðsmarkið fyrir löngu, svo maður verður að standa við stóru orðin. Ég er mjög ánægður með mitt framlag hérna í dag. Ég næ að skora mark og leggja önnur tvö, svo að ég vona að ég sé ekki að spila minn síðasta landsleik. Ég hefði líka viljað sjá skotið mitt sem fór í slána fara inn. Eiður sagði mér að það hefði munað nokkrum sentimetrum, en svona er boltinn,“ sagði Tryggvi Guðmundsson sem varð í gær tíundi leikmaðurinn frá upphafi sem skorar 10 A-landsliðsmörk. Tryggvi skoraði fyrsta markið sitt í fyrsta landsleiknum sínum gegn Færeyjum 27. júlí 1997 og það tíunda í sínum 35. landsleik á Laugardalsvellinum í gær. Það hafa aðeins þrír leikmenn verið fljótari að skora tíunda markið sitt, Ríkharður Jónsson náði því í 14. leiknum, Eiður Smári Guðjohnsen í þeim þrítugasta og Ríkharður Daðason skoraði sitt 10. mark í sínum 32. landsleik. Tryggvi hefur skorað fimm mörk í fyrstu fjórum leikjum Landsbankadeildarinnar og þessi mikli markaskorari nýtti tækifærið í landsliðinu vel í gær en hann skilaði, auk marks og tveggja stoðsendinga, fyrirliðastöðunni síðustu tíu mínútur leiksins. „Maður heyrir raddirnar í stúkunni þegar fólk er orðið pirrað á því hvað okkur gengur illa að brjóta niður þessa 6-3-1 vörn hjá þeim sem er auðvitað mjög erfið við að eiga. Það er bara þolinmæðisvinna að brjóta svona vörn á bak aftur og hún bíður ekki upp á neina samba-knattspyrnu, en við náðum að setja fjögur mörk á þá og klára þetta,“ segir Tryggvi sem skoraði þarna í þriðja landsleiknum í röð gegn Möltubúum sem ættu að vera farnir að kannast vel við kappann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×