Sport

Sigurinn gefur okkur sjálfstraust

„Það er vissulega léttir að vera búnir að klára þennan leik, 4-1 eru góð úrslit og ég bið ekki um meira," sagði Ásgeir Sigurvinsson landsliðsþjálfari eftir leikinn. „Við leyfðum þeim að komast inn í leikinn á dálitið ódýran hátt, en við vorum betra liðið í dag og verðskulduðum þennan sigur. Við byrjuðum seinni hálfleikinn ekki nógu vel og ekki þann fyrri heldur í rauninni, því við vorum lengi að koma okkur í gang. Liðið náði sér á ágætan skrið undir lok fyrri hálfleiksins og náði svo að rífa sig upp eftir að þeir minnkuðu muninn, sem mér fannst bera vott um góðan karakter. Við vissum að þeir yrðu mjög varnarlega sinnaðir og við tókum ekki ákvörðun um að stilla upp 4-4-3 fyrr en við sáum æfingu hjá þeim og sáum hversu varnarsinnað þeir ætluðu að leika gegn okkur. Við ákváðum að reyna því að nýta okkur vængina og hafa Eið í sóknarhlutverki á miðjunni, sem mér fannst bara heppnast ágætlega. Ungu strákarnir voru að leika mjög vel og það var gaman að sjá Tryggva koma inn og standa sig svona vel. Hann sannaði það að það er ekkert búið að afskrifa menn þó þeir komi til Íslands. Við erum auðvitað að mæta með mjög ungt lið til leiks hérna núna og ég held að ég hafi talið eina átta leikmenn sem vantaði í liðið, svo að þetta var bara mjög ánægjulegur dagur. Mér finnst jákvæðast við leikinn í dag að við skulum skora fjögur mörk og að við skyldum ekki láta það á okkur fá þegar við fengum á okkur markið og vinna sannfærandi. Ég vona að þetta gefi okkur sjálfstraust í næstu leiki og það verður mjög gaman að taka á móti Króötunum í næsta leik."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×