Sport

Línur að skýrast í undankeppni HM

Hollendingar eru í góðum málum á toppi 1. riðils í undankeppni HM í knattspyrnu eftir 4-0 útisigur á Finnum í Helsinki í kvöld. Holland er með 22 stig en Tékkar fylgja á eftir með 21 stig eftir 6-1 sigur á Makedóníu. Í riðli 2 eru Evrópumeistarar Grikkja á tæpu vaði en ennþá í séns eftir að þeir töpuðu fyrir Úkraínu á heimavelli en sigurmark gestanna kom í blálokin. Úkraína er efst með 23 stig eftir leikinn og nánast öruggir til Þýskalands en Tyrkir sem unnu stórsigur á Kazakhstan, 0-6 á útivelli eru í 2. sæti með 16 stig. Á eftir þeim koma Grikkir með 15 stig og Danir í fjórða með 12 stig. Portúgalar eru í ágætis málum á toppi 3. riðils eftir 0-1 útisigur gegn Eistlandi og eru nú með 20 stig á undan Slóvökum með 17 stig og Rússum með 14 stig en þeir eiga leik til góða á toppliðin tvö. Slóvakía vann Luxembourg 0-4 í kvöld. Færeyingar stóðu í Írum í 4. riðli og héldu markalausu í Færeyjum fram í síðari hálfleik en þá skoruðu Írar tvö mörk og unnu 0-2. Það er allt í hnút í riðlinum þar sem 4 lið berjast um tvö efstu sætin. Írar efstir með 13 stig eftir 7 leiki, Sviss í 2. sæti með 12 stig eftir 6 leiki, Ísrael í 3. sæti með 11 stig eftir 7 leiki og Frakkar í 4. sæti með 10 stig eftir 6 leiki. Skotar eru í vandræðum í 5. riðli eftir markalaust jafntefli við Hvít-Rússa. Ítalir eru efstir með 13 stig og Norðmenn í 2. sæti með 9 stig eins og Slóvenía. Skotar eru með 6 stig.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×