Menning

Stærri og betri Passat

Volkswagen Passat var rúmgóður fyrir en hefur stækkað til muna frá eldri útfærslu, lengst um 62 sentimetra, breikkað um 74 og hækkað um 10. Útlitið er mjög mikið breytt og fært til nútímalegra horfs enda eru ein átta ár síðan bíllinn var síðast uppfærður frá grunni. Stærðin skilar sér í góðu plássi fyrir stórt fólk bæði fram í og aftur í. Skottið er einnig stórt og mikið og eitt af skemmtilegu smáatriðunum í búnaði bílsins er einmitt fjarstýrð opnun á skottloki, þ.e. skottið aflæsist ekki bara heldur opnast lokið með fjarstýringunni. Ein nýungin í Passatinum er rafrænn stöðuhemill (EPB) sem kemur í stað hefðbundinnar handbremsu. Stöðuhemillinn nýtist einnig sem neyðarhemill. Rafrænn kveikjulykill er líka skemmtilega útfærður. Honum er komið fyrir í rauf og síðan þrýst innar til að starta bílnum. Á meðal ríkulegs staðalbúnaðar í Passat má nefna ESP stöðugleikastýringu, 6 öryggispúða, rafrænan stöðuhemil, ABS hemla með hemladreifikerfi og hjálparafl fyrir bremsur. Passatinn er fáanlegur í fjórum mismunandi útfærslum, Trendline sem er grunnútfærslan, Comfortline með viðbótarþægindum, Sportline sem er sportleg útfærsla og loks Highline með nokkrum íburði. Bíllin er fáanlegur með fjölmörgum gerðum véla. Fyrst um sinn með 115 og 150 hestafla FSI vélum og 105 og 140 hestafla TDI dísilvélum. Bíllinn er ýmist búinn 5 og 6 gíra beinskiptingu eða 6 þrepa sjálfskiptingu. Síðar á árinu verður hann einnig fáanlegur með DSG sjálfskptingu. Passatinn er sem fyrr framleiddur sem stallbakur og langbakur en langbakurinn er ekki væntanlegur fyrr en í haust. Reynsluekinn var beinskiptur bíll með 1,6 lítra 115 hestafla bensínvél. Sú vél var á mörkum þess að vera nógu öflug til að gera þennan stóra bíl reglulega skemmtilegan í akstri. Mun skemmtilegri voru bílar með stærri vélum sem undirrituð tók aðeins í. Nýr Passat verður sýndur um helgina í Heklu á Laugavegi, Heklu í Reykjanesbæ, Heklu á Selfossi, Heklu á Reyðarfirði og hjá Höldi á Akureyri. Opið er bæði í dag og á morgun frá klukkan 12 til 16.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×