Sport

Rændur í beinni

Brasilíski knattspyrnusnillingurinn Roberto Carlos sem leikur með Real Madrid lenti í byssuvopnuðum ræningjum í gær á meðan hann var í símaviðtali við útvarpsstöð í í heimalandinu sínu. Carlos var þó ekki sjálfur rændur en bílstjóri hans þurfti að afhenda ræningjunum verðmæti sín áður en þeir brunuðu á brott á mótórhjólum sínum. "Þeir bara rændu bílinn minn, Þeir bara rændu bílinn minn!" sagði Carlos furðulostinn í beinni útsendingu og hló taugaveiklunarlega. Hann var staddur í bíl sínum ásamt kærustunni, óvopnuðum lífverði og blaðamanni sem keyrði bílinn í þungri umferð á leið til borgarinnar Belo Horizonte í Brasilíu.  Í útvarpsviðtalinu heyrist skyndilega bankað á gluggann með málmhlut sem reyndist svo vera byssa og háværar raddir í kjölfarið. Blaðamaðurinn tapaði hringnum sínum og gsm símanum til ræningjanna. Götuglæpir sem þessir eru mjög algengir í Brasilíu þar sem morðtíðnin er ein sú hæsta í heimi. Það má því jafnvel segja að Carlos og félagar séu heppin að vera á lífi eftir þessa ökuferð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×