Erlent

Flest líkin af konum og börnum

Sérfræðingar rannsaka nú fjöldagröf sem fannst í suðurhluta Írak. Þeir telja að þar sé að finna lík 1.500 Kúrda, að mestu kvenna og barna. Talið er að fólkinu hafi verið raðað upp og skotið seint á níunda áratugnum við átján grunnar grafir sem fundist hafa nærri bænum Samawa. Einnig er talið að fólkið hafi verið flutt nauðugt frá norðurhluta Írak. Reiknað er með að sannanir sem finnast í þessum fjöldagröfum verði notaðar í málaferli gegn Saddam Hussein og helstu aðstoðarmönnum hans. Þegar hafa 133 lík verið grafin upp. Öll, utan fimm, eru lík kvenna og barna. Af klæðaburði þeirra má merkja að þau voru Kúrdar. Að minnsta kosti eitt líkið er talið vera af gamalli konu, en í höfuðkúpunni fundust falskar tennur. Íraskir embættismenn segja að grunur leiki á að finna megi fjöldagrafir á 300 stöðum í landinu. Sú fjöldagröf sem nú fannst er önnur gröfin sem er rannsökuð að einhverju leyti. Fjöldagröfin fannst á síðasta ári, en rannsóknir hófust ekki fyrr en snemma á þessu ári. Ofbeldishrinan í Bagdad og norðurhluta Írak hélt áfram í gær, annan daginn í röð. Að minnsta kosti 11 Írakar létust og 40 slösuðust. Á föstudag sprungu í það minnsta 17 sprengjur í Írak. 50 manns létust, þar af fimm bandarískir hermenn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×