Innlent

Stærsta skip landsins í höfn

"Ég býst að geta skilað einhverjum afla í land," segir Þórður Magnússon, skipstjóri Engeyjarinnar, stærsta skips íslenska flotans. Engey RE 1 lagði að bryggju við Norðurgarð í Reykjavíkurhöfn um miðjan dag í gær. Skipið, sem er í eigu HB Granda, er engin smásmíð; það er105 metra langt, 20 metra breitt og 7.800 brúttótonn að þyngd og 26 skipverjar eru um borð. Skipið var smíðað á Spáni fyrir rúmum áratug en HB Grandi keypti það síðastliðið haust og lét gera upp í Póllandi. "Það er frábært að sigla þessu skipi, það lætur vel að stjórn," segir Þórður Magnússon, skiptstjóri Engeyjar. Togarinn verður notað til veiða á loðnu, síld og kolmunna. Endurbætur á skipinu miðuðust við að útbúa það sem best til uppsjávarveiða og er allur vinnslubúnaðurinn nýr, þar á meðal tuttugu lóðrétt frystitæki og sjö sjálfvirkar síldarflökunarvélar. Þórður er bjartsýnn á veiðarnar enda er tækjabúnaður skipsins eins og best verður á kosið og afkastageta þess feykileg; afli er sjókældur um leið og honum er dælt um borð og þangað til hann er flakaður. Flökunum er pakkað um borð og rúmar frystigeymsla skipsins um tvö þúsund bretti. Hægt er að frysta allt að 250 tonn á sólarhring og fiskimjölsverksmiðjan um borð afkastar allt að því 150 tonnum af hráefni á sólarhring. Allar íbúðir í skipinu eru nýjar og aðstaða skipverja um borð er ein sú besta sem völ er á í íslensku fiskiskipi. Þórður segist gera ráð fyrir að láta úr höfn fljótlega eftir sjómannadag, fram að því verður skipið undirbúið til veiða. Á föstudag gefst gestum og gangandi tækifæri á að fara um borð og skoða skipið. Þá verður skipið einnig til sýnis á Akranesi áður en það heldur í sína fyrstu veiðiferð. Þórður segist hlakka mikið til að sigla Engeynni út á mið og að framundan séu spennandi tímar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×