Erlent

Danir ákærðir fyrir pyntingar

Fjórir herlögreglumenn og einn höfuðsmaður í danska hernum voru í dag leiddir fyrir rétt í Kaupmannahöfn en þeir eru ákærðir fyrir að hafa beitt írakska fanga harðræði. Sakborningarnir halda allir fram sakleysi sínu. Höfuðsmanninum Annemette Hommel er gefið að sök að hafa neytt fjóra írakska fanga til að krjúpa í óþægilegum stellingum á meðan þeir voru yfirheyrðir. Fimmmenningarnir eru einnig sagðir hafa talað niðrandi til fanganna og neitað þeim um drykkjarvatn meðan á yfirheyrslum stóð. Lögmaður Hommels sagði reglur danska hersins um yfirheyrslur vera óskýrar, auk þess sem Hommel hefði ekki notið leiðsagnar yfirmanna sinna. Herlögreglumennirnir fjórir hafa ekki verið nafngreindir, samkvæmt réttartilskipun þar um. Sök þeirra er talin alveg jafn mikil og Hommels svo ef þau verða fundin sek eiga þau yfir höfði sér ársfangelsi hvert. Enginn herréttur er til í Danmörku svo réttarhöldin fara fram fyrir venjulegum dómstólum. Búist er við að þau standi fram í desember, enda er ætlunin að leiða hátt í sjötíu vitni fyrir réttinn. Lynndie England, bandaríski hermaðurinn sem hneykslaði heimsbyggðina þegar myndir af henni birtust þar sem hún niðurlægði og píndi írakska fanga í Abu Ghraib fangelsinu, mætti einnig fyrir rétt í Texas í dag. Hún játaði á sig sakir en hámarksrefsing herréttar verður líklega ellefu ára fangelsi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×