Innlent

Ríkislögreglustjóri ekki ákærður

Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri.
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri var ekki ákærður fyrir líflátshótun sem hann hafði í frammi við mann í ársbyrjun 2001 þrátt fyrir að lög kveði á um að þeir sem hóti lífláti skuli sæta opinberri ákæru.

Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Mannlífs sem jafnframt birtir mynd af skýrslu lögreglu vegna málsins. Í febrúar 2001 var ríkislögreglustjóri staddur á Vínbarnum í Reykjavík þegar Ingvar J. Karlsson gengur að honum og ávarpar með röngu nafni. Ríkislögreglustjóri mun hafa brugðist hinn versti við, staðið upp, sagst heita Haraldur og vera ríkislögreglustjóri og síðan skvett úr vínglasi yfir Ingvar. Vitni að atburðinum segja að í kjölfarið hafi Haraldur hótað manninum lífláti.

Kallað var á lögreglu sem gerði skýrslu vegna málsins en samkvæmt Mannlífi þorði Ingvar ekki að leggja fram kæru á hendur Haraldi vegna þess að hann væri ríkislögreglustjóri. Hegningarlögin gera hins vegar ráð fyrir að vísa beri líflátshótunum til saksóknara hvort sem fórnarlömb kæra eða ekki svo fyrirbyggja megi að hætt sé við kæru vegna ótta.

Þá segir að töluverður urgur innan lögreglunnar vegna málsins þar sem því var ekki fylgt eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×