Sport

Figo sagður semja við Liverpool

Netmiðillinn squarefootball.net greinir frá því í kvöld að portúgalski landsliðsmaðurinn Luis Figo sé genginn til liðs við Evrópumeistara Liverpool en hann hefur fengið leyfi frá Real Madrid til að yfirgefa félagið. Netmiðillinn kveðst hafa heimildir fyrir því frá innanbúðarmanni á Anfield að Figo hafi gert eins árs samning við Liverpool en á þessum tíma er ekki vitað hvort um lánssamning sé að ræða. Figo verður 33 ára í nóvember. Þetta gætu verið sárabótatíðindi fyrir stuðningsmenn Liverpool sem eru í sárum eftir að fyrirliðinn Steven Gerrard tilkynnti í dag að hann væri á förum frá félaginu. Sjónvarpsstöðin Sky hefur t.a.m. sýnt myndir af Gerrard keppnistreyjum í ljósum logum sem kveikt var í af vonsviknum stuðningsmönnum í Liverpool borg. Liverpool hefur farið mikinn á leikmannamarkaðnum undanfarið. Í gær var tilkynnt um komu fjögurra nýrra leikmanna til Anfield. Bolo Zenden kom frá Middlesbrough, Mark Gonzales frá Albacete á lánssamning, Spánverjinn Antonio Barragan frá Sevilla og að lokum markvörðurinn Jose Reina frá Villarreal.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×