Viðskipti innlent

Hagar sækja áfram inn á sérvörumarkað

Oasis í Smáralind. Hagar hafa keypt tíu tískuverslanir í Kringlunni og Smáralind á skömmum tíma.
Oasis í Smáralind. Hagar hafa keypt tíu tískuverslanir í Kringlunni og Smáralind á skömmum tíma.

Hagar hafa eignast fimm sérvöruverslanir í Kringlunni og Smáralind, sem reknar eru undir merkjum Change, Coast og Oasis, og taka við rekstri þeirra á næstu dögum. Seljendur verslananna eru hjónin Ingibjörg Þorvaldsdóttir og Jón Arnar Guðbrandsson, sem höfðu sérleyfi fyrir þessi merki á Íslandi.

Við höfum náð frábærum árangri á Íslandi og er það Ingibjörgu mest að þakka, segir Jón Arnar og kímir. Oasis-verslunin í Kringlunni hefur oft verið notuð sem sýnidæmi fyrir þær verslanir sem hafa verið að koma inn frá öðrum löndum og hefur í gegnum tíðina verið söluhæsta verslun Oasis fyrir utan Bretland.

Jón Arnar segir að þau muni nú einblína á danska markaðinn en þau reka fjórar Oasis-verslanir, meðal annars í Magasin du Nord, og undirbúa opnun fimmtu verslunarinnar í Illum. Hann segir að Oasis hafi fengar góðar viðtökur í Danmörku og standi merkið dönskum samkeppnisaðilum fyllilega á sporði.

Samkvæmt heimildum var velta þessara fimm verslana, sem Hagar festu kaup á, rétt um þrjú hundruð milljónir króna á síðasta ári og varð góður hagnaður af starfseminni.

Hagar hafa sett stefnuna á minni sérvöruverslanir að undanförnu eftir að hafa haldið að sér höndum um nokkurt skeið og eingöngu einblínt á þær stóru sérvöruverslanir sem félagið rekur eins og Debenhams og Zara. Í framhaldi af því að við seldum Skeljung höfum við sett stefnuna á smásölumarkaðinn, segir Finnur Árnason, forstjóri Haga. Hagar keyptu fyrir nokkrum vikum fimm verslanir í Kringlunni um svipað leyti og félagið seldi Skeljung. Þetta voru tískuverslanirnar Karen Millen, Whistles, Shoe Studio, Warehouse og All Saints.

Finnur segir að Hagar muni opna nýja verslun í Smáralind í næsta mánuði undir merkjum bresku verslunarkeðjunnar Evans, sem selur kvenföt fyrir eldri konur.

Nær öll þessi tískumerki eiga það sammerkt að vera annað hvort í eigu Mosaic Fashions eða Shoe Studio Group, sem eru að hluta til í eigu Baugs Group, stærsta hluthafans í Högum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×