Viðskipti innlent

FL Group selur Sterling fyrir 20 milljarða

FL Group hefur selt danska flugfélagið Sterling fyrir 20 milljarða króna. Kaupandi félagins er nýstofnað fyrirtæki í ferðaþjónustu sem fengið hefur heitið Northern Travel Holding. Hluthafar hins nýja fyrirtækis eru íslensku fjárfestingafélögin Fons, FL Group og Sund.

Kaupverðið verður greitt með 6 milljörðum króna í reiðufé og 14 milljörðum króna í formi seljendaláns til þriggja ára sem FL Group veitir. Til viðbótar þessu mun Northern Travel Holding taka yfir á næstu tólf mánuðum rekstrarlán og ábyrgðir sem FL Group hefur veitt Sterling. Salan á Sterling hefur lítil áhrif á rekstur FL Group og stöðu eigin fjár, að því er segir í tilkynningu um viðskiptin.

Innan Northern Travel Holding eru félögin Iceland Express, 51% hlutur í breska leiguflugfélaginu Astraeus, 29,26% hlutur í sænsku ferðaskrifstofunni Ticket sem skráð er á sænska hlutabréfamarkaðinn og allt hlutafé í dönsku ferðaskrifstofunni Hekla Travel. Hluthafar Northern Travel Holding eru Fons (44%), FL Group (34%) og Sund (22%). Félagið er fjármagnað með lánsfé og eigin fé en alls hefur félagið 11,5 milljarða króna í eigið fé.

FL Group eignaðist Sterling í október í fyrra eftir að það sameinaðist Maersk Air.

Auk kaupanna á Sterling kaupir Northern Travel Holding allt hlutafé í Iceland Express, 51% hlutafjár í Astraeus, alla hluti í Hekla Travel og um 30% útistandandi hluta í Ticket. Samanlögð velta þeirra félaga sem Northern Travel Holding kaupir er áætluð um 120 milljarðar króna og félagið flýgur um 7,5 milljón farþegum árlega.

Hannes Smárason, forstjóri FL Group, segir söluna á Sterling mikilvægt skref þar sem það hafi verið síðasta dótturfélag FL Group á sviði flugrekstrar. Þá verði til spennandi afl á ferðamarkaði á Norðurlöndunum með stofnun Northern Travel Holding, að hans sögn.

Hannes verður í hádegisviðtalinu á Stöð 2 í dag.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×