Innlent

Naustið verður kínverskt veitingahús

Opnað hefur verið í gegnum salinn fram í endann þar sem barinn Geirstofa var áður. Aðalinngangurinn verður þar sem gengið var inn í Geirsbúð. Básarnir eru farnir á nýja staði.
Opnað hefur verið í gegnum salinn fram í endann þar sem barinn Geirstofa var áður. Aðalinngangurinn verður þar sem gengið var inn í Geirsbúð. Básarnir eru farnir á nýja staði. MYND/Anton

„Það er bara verið að rífa allt út og búa til nýjan stað,“ segir Karl Steingrímsson, eigandi Naustsins á Vesturgötu.

Naustið, sem á sínum tíma þótti einn glæsilegasti veitingastaður landsins, hefur lengi ekki staðið undir væntingum um rekstur. „Við sjáum eftir Naustinu en staðurinn var barn síns tíma. Reksturinn gekk ekki upp í þeim gír sem hann var. Fasteignin verður að skila sér í arðsemi,“ segir Karl sem eignaðist húsið fyrir tólf árum.

Að sögn Karls hefur engin rekstur verið í húsinu í hálft annað ár: „Svo komu þessir Kínverjar. Þeir eru með staði í Belgíu, Hollandi og Frakklandi. Þeir ætla að hasla sér völl hér.“

Karl segir innréttingar fyrir kínverska staðinn komnar til landsins og að stefnt sé að því að opna staðinn í mars. Matargerðin verði kantónísk og veitingastaðurinn í betri flokki.

Innréttingar í Naustinu eru um margt sögufrægar og ófáar frásagnir sem sprottnar eru úr básunum sem fólk sat þar í. Sömuleiðis var Símonarbar á efri hæðinni goðsagnakenndur.

Karl segist hafa látið mynda allar innréttingar Naustsins að ósk Árbæjarsafnsins. Öllum hlutum sem hafi haft heimildagildi, eins og ljósum, myndum og frægum básamerkingum, hafi verið komið fyrir í geymslu.

„En við erum búnir að ráðstafa básunum. Helmingur fór á Hótel Látrabjarg og helmingur til pítsustaðarins Mamma Mía í Sandgerði. Þeir sem vilja vekja endurminningar úr matsal Naustsins geta sótt heim Látrabjarg eða Sandgerði,“ segir Karl Steingrímsson.

Símonarbar Það stendur vart steinn yfir steini á Símonarbar þessa dagana.


.
Gamlir tímar Matseðlar leika nú lausum hala um gólf Naustsins.


.
Naustið Bráðum verður hægt að fá núðlur í Naustinu.


.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×