Erlent

Hafna nýrri stjórnarskrá

Atkvæði talin í Róm Atkvæðum hellt úr kjörkassa til talningar í Róm í gær.
Atkvæði talin í Róm Atkvæðum hellt úr kjörkassa til talningar í Róm í gær. MYND/AP

Í þjóðaratkvæðagreiðslu sem fram fór í gær og fyrradag hafnaði meirihluti ítalskra kjósenda tillögu að víðtækri uppfærslu á stjórnarskrá Ítalíu sem fyrri ríkisstjórn undir forystu Silvios Berlusconi hafði látið gera. Samkvæmt fyrstu tölum var tillagan felld með öruggum mun, en sú niðurstaða er fagnaðarefni fyrir núverandi ríkisstjórn miðju- og vinstriflokka undir forystu Romanos Prodi.

Atkvæðagreiðslan var álitin prófraun á fylgi við nýju stjórnina, tveimur mánuðum eftir að flokkabandalagið sem að henni stendur vann nauman sigur í þingkosningum.

Þegar atkvæði höfðu verið talin í vel yfir helmingi allra hinna rúmlega sextíu þúsund kjördæma höfnuðu rúmlega 62 prósent kjósenda stjórnarskrárbreytingunum en tæplega 38 prósent vildu samþykkja þær.

Þessar niðurstöður eru okkur hvatning til að fylgja ótrauðir okkar striki, sagði Arturo Parisi, varnarmálaráðherra og samherji Prodis til margra ára. Stjórn Prodis hafði beitt sér gegn stjórnarskrárbreytingunni, sem hún sagði myndu færa óhóflega miklar valdheimildir til framkvæmda­valdsins.

Breytingarnar hefðu meðal annars styrkt völd forsætisráðherrans, fært héraðsstjórnum aukin völd á kostnað miðstýringarvaldsins í Róm, og fækkað þingmönnum. Aðrar breytingar miðuðu meðal annars að því að stuðla að stöðugri ríkisstjórnum en Ítalir hafa búið við á síðustu áratugum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×