Innlent

Rýmt verði fyrir íbúðabyggð

Olíutankarnir í Örfirisey Meirihlutinn í borginni telur Örfirisey vera áhugaverðan kost fyrir íbúðabyggð.
Olíutankarnir í Örfirisey Meirihlutinn í borginni telur Örfirisey vera áhugaverðan kost fyrir íbúðabyggð. MYND/GVA

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti á fundi síðastliðinn fimmtudag að stofna verkefnis­stjórn, sem skal láta athuga framtíðarstaðsetningu olíubirgðastöðvarinnar í Örfirisey. Í kjölfarið verði svo athugað hvort betra væri að hafa stöðina í Hvalfirði eða á Grundartanga. Einnig verður skoðað hvort henti að flytja olíu svo langa leið frá nýrri stöð inn í höfuðborgina.

Gísli Marteinn Baldursson, sem situr í borgarráði, segir hugmyndina hafa verið lengi uppi á borðinu. „Þessi tillaga sem við lögðum fram núna miðar að því að finna aðrar lausnir og komast að því hvar annars staðar þessir olíugeymar geta verið,“ segir Gísli.

Gísli segir ástæðuna fyrir þessu vera fyrirhugaða fimm til tíuþúsund manna íbúðabyggð í Örfirisey. „Olíubirgðastöð fer ekki saman við þær áætlanir. Það þarf að keyra mörg tonn af eldsneyti gegnum miðborgina, sem er ekki gott fyrir neinn. Þessi byggð mun þó ekki rísa á næstunni, fyrst verður byggt á Geldinganesinu, en Örfirisey er gott byggingaland og þetta yrði mikill áfangi í þéttingu byggðar.“

Verkefnisstjórnin mun skila tillögum um verklag og tímaáætlun til borgarráðs fyrir 15. september.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×