Innlent

Fjórar nýjar plöntur í Surtsey

Surtsey Leiðangursmenn sitja innan um plönturnar á yngsta landsvæði veraldar.
Surtsey Leiðangursmenn sitja innan um plönturnar á yngsta landsvæði veraldar.

Fjórar nýjar háplöntutegundir fundust í leiðangri líffræðinga til Surtseyjar sem farinn var 17. til 20. júlí síðastliðinn á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands og Surtseyjarfélagsins.

Leiðangur sem þessi er farinn nær árlega til að kanna lífríki í eynni. Að þessu sinni fundust þúfusteinbrjótur, burnirót, blávingull og stórar blómstrandi blóðbergs­plöntur, en engar þessara tegunda hafa fundist áður í eynni. Nú hafa því 64 æðri plöntur fundist í eyjunni frá upphafi, en einungis 56 reyndust á lífi að þessu sinni. Fléttutegundir eru nú orðnar um 80 á eyjunni og hefur fjölgað nokkuð.

Þá var skordýrum safnað í leiðangrinum og þótti leiðangursmönnum það forvitnilegt að finna þar þistilfiðrildi, sem er erlendur flækingur.

Einnig var fuglavarp skoðað, en í eynni verpa nú maríuerla, sólskríkja, þúfutittlingur, grágæs, fýll, teista, lundi og ýmsir mávar.

Leiðangursstjóri leiðangursins var dr. Borgþór Magnússon en með í för voru átta íslenskir náttúrufræðingar, meðal annarra grasafræðingurinn Sturla Friðriksson og skordýrafræðingurinn Erling Ólafsson, auk Jim Juvik, landfræðiprófessor frá Hawaii, sem rannsakað hefur líf á eldeyjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×