Innlent

Kostirnir eru króna eða ESB

Aðeins tveir raunhæfir kostir eru varðandi framtíðarskipan gengismála á Íslandi. Annaðhvort núverandi staða með flotgengisstefnu krónunnar eða upptaka evru með inngöngu í myntbandalagið og Evrópusambandið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Viðskiptaráðs sem kemur út í dag.

Breiður hópur fólks kom að vinnslu skýrslunnar og segir Erlendur Hjaltason, formaður stjórnar Viðskiptaráðs, að það hafi verið metnaðarmál að fá hóp úr mismunandi áttum til vinnunnar.

Hann segir tilganginn með þessari skýrslu að skapa grundvöll fyrir vandaðri umræðu um það hvernig málum verði best fyrir komið til framtíðar. Mikilvægt sé að gefa sér enga niðurstöðu fyrirfram í þeim efnum. Málið sé einfaldlega of stórt til þess.

Ólafur Ísleifsson, hagfræðingur og lektor, fór fyrir nefndinni sem vann skýrsluna. Hann segir að af tæknilegum kostum í framtíðarskipan gjaldeyrismála séu í raun aðeins tveir sem komi til greina. Hann leggur áherslu á að upptaka evru myndi ekki leysa þann vanda sem við er að glíma í hagkerfinu og að samræma þurfi betur hagstjórn í landinu.

Til þess að Íslendingar geti átt raunhæft val milli þessara tveggja kosta þarf skipan og stjórn efnahagsmála að vera með þeim hætti að hún sé til þess fallin að stuðla hér að jafnvægi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×