Erlent

Ríki heims einblína á tvíhliða viðræður

Kamal Nath
Kamal Nath

Allt útlit er fyrir að ríki heims einblíni í auknum mæli á tvíhliða viðræður í alþjóðaviðskiptum eftir að fimm ára löngum Doha-viðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar lauk í gær með vonbrigðum og ásökunum um ósveigjanleika á báða bóga.

Verslunar- og iðnaðarráðherra Indlands, Kamal Nath, tjáði blaðamönnum í gær að enn væri stefnt á að gera „efnahagslega samstarfssamninga“ við Evrópu og Japan, en minntist ekki á Bandaríkin. Hann kvaðst vera ánægður með að hafa ekki látið undan þrýstingi hinna ríkari þjóða og brigslaði þeim um skilningsleysi.

Nath taldi meginástæðu þess að samningaviðræðurnar mistókust ekki vera „ágreining um tölur“. Indverjar hefðu litið svo á að viðræðurnar snerust um útflutning varnings fátækra ríkja til þeirra ríkari, með þróunarsjónarmið að leiðarljósi, en ríkari þjóðir heims hefðu verið að semja um aukin markaðstækifæri fyrir sig sjálf.

Talsmaður Evrópusambandsins, Peter Mendelson, tók undir gagnrýni verslunarráðherrans og sagði Bandaríkjamenn bera höfuðábyrgð á klúðri viðræðnanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×