Innlent

Enginn að vinna að rannsókn á samráði

Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson

Samráð Enginn starfsmaður ríkissaksóknara vinnur að rannsókn á samráði olíufélaganna, eins og mál standa nú, en Ríkislögreglustjóri sendi málið frá sér til embættisins 17. nóvember á síðasta ári.

Eini starfsmaðurinn sem unnið hefur að málinu, Helgi Magnús Gunnarsson lögfræðingur, er í sumarfríi til 21. ágúst og á meðan verður ekki unnið að framgangi málsins, samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkis­saksóknara.

Helgi Magnús segir ríkissaksóknara hafa óskað eftir því að fá leyfi til þess að leggja meiri kraft í rannsókn málsins, með því að vinna meiri yfirvinnu, en þeirri beiðni var hafnað. „Það var óskað eftir rýmri heimild til að vinna lengri vinnudaga til þess að geta flýtt rannsókn málsins en því var hafnað af kjaranefnd. Það eru allir starfsmenn embættisins hlaðnir verkum þannig að það gefst einfaldlega ekki tækifæri á því að sinna rannsókninni af meiri krafti. Ég býst við því að niðurstaða, af hálfu okkar, verði ljós á haustmánuðum.“

Helgi Magnús vildi ekki láta uppi hversu margir einstaklingar væru til rannsóknar vegna málsins, en í Fréttablaðinu 1. febrúar á þessu ári var haft eftir Helga Magnúsi að 34 einstaklingar hefðu réttarstöðu sakbornings í málinu. Það kann að hafa breyst eftir því sem á rannsókn málsins hefur liðið.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri samkeppniseftirlitsins, telur brýnt að samráðsmál af þeirri stærðargráðu sem nú er til rannsóknar hjá ríkissaksóknara fái eins skjóta meðferð og kostur er. „Það er almennt viðurkennt að samráðsmál af þessu tagi geta verið alvarleg fyrir samfélagið og varða almannahagsmuni. Það er því mjög brýnt að unnið sé að framgangi rannsókna á slíkum málum, af eins miklum hraða og kostur er.“

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra vildi ekki svara því hvort hann teldi að unnið væri að rannsókn á samráði olíufélaganna að nægilegum krafti, og beindi spurningum til „ríkissaksóknara til að svara þessu erindi“.

Rannsókn samkeppnisyfirvalda á samráði olíufélaganna hófst með húsleit í aðalskrifstofum félaganna 18. desember 2001. Hinn 28. október 2004, eftir að rannsókn á vegum eftirlitsins lauk, sektaði samkeppnisráð olíufélögin um 2,6 milljarða fyrir brot gegn samkeppnislögum. Áfrýjunarnefnd samkeppnismála gaf út úrskurð sinn 29. janúar 2005 og lækkar sektir félaganna um rúman milljarð, í 1,5 milljarða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×