Viðskipti innlent

Murdoch og Google saman

Rupert Murdoch Stefnumótavefurinn MySpace sem er í eigu NewsCorp, fyrirtækis Ruperts Murdochs, verður með leitarvél frá Google.
Rupert Murdoch Stefnumótavefurinn MySpace sem er í eigu NewsCorp, fyrirtækis Ruperts Murdochs, verður með leitarvél frá Google.

Google mun framvegis sjá notendum stefnumótasíðunnar MySpace fyrir leitarvél. Google greiðir MySpace 65 milljarða króna fyrir réttinn sem felur einnig í sér heimild til að ráðstafa auglýsingum á síður MySpace.

MySpace er í eigu NewsCorp, fyrirtækis fjölmiðlamógúlsins Rupert Murdoch, og eru skráðir notendur síðunnar um hundrað milljónir. Tvö hundruð og fimmtíu þúsund nýjir notendur skrá sig á MySpace á dag. NewsCorp keypti MySpace á síðasta ári fyrir um fjörutíu milljarða íslenskra króna. Google mun einnig sjá öðrum vefsíðum NewsCorp fyrir leitarvél.

Google var ekki eitt um hituna því Microsoft og Yahoo vildu einnig sjá MySpace fyrir leitarvél. Google er réttnefndur internetrisi en um sextíu prósent allra netgesta nota leitarvél fyrirtækisins.

Rupert Murdoch hefur verið að færa út kvíar fjölmiðlaveldis síns undanfarin misseri. NewsCorp hefur hingað til lagt megináherslu á rekstur dagblaða, útvarps- og sjónvarpsstöðva. Murdoch hefur fjárfest í internetfyrirtækjum fyrir tæpa hundrað og tíu milljarða króna síðastliðið ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×