Viðskipti innlent

Nærri 40 prósenta arðsemi hjá MP

Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri MP
Bankinn skilaði methagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins.
Styrmir Þór Bragason, framkvæmdastjóri MP Bankinn skilaði methagnaði á fyrstu sex mánuðum ársins.

MP Fjárfestingarbanki hagnaðist sem nam 615 milljónum króna á fyrri hluta ársins sem er yfir 78 prósenta aukning milli ára. Jafngildir þetta um 39 prósenta arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli.

Hreinar rekstrartekjur MP voru 1.077 milljónir króna. Vaxtatekjur voru neikvæðar um 250 milljónir, þóknunartekjur voru 569 milljónir króna og gengishagnaður af fjármálastarfsemi var 725 milljónir króna. Mikill gengishagnaður varð af verðbréfastarfsemi eða 1.693 milljónir króna, hins vegar nam gengistap af gjaldmiðlum um 968 milljónum króna.

Heildareignir bankans voru 24,8 milljarðar króna um mitt ár og höfðu dregist saman um eitt prósent frá áramótum. Þar af lækkuðu markaðsverðbréf og eignarhlutur í öðrum félögum um fimmtung frá áramótum og námu 15,6 milljörðum króna. Umsvif bankans voru aukin erlendis en efnahagsreikningur bankans hérlendis dróst saman.

Eigið fé bankans hækkaði um einn milljarð króna á tímabilinu og stóð í 4.378 milljónum króna í lok júní. Hækkunin kemur að hluta til vegna aukins hlutafjár en innra virði hlutafjár hefur hækkað um 22 prósent á árinu, úr 3,35 í 4,09. Margeir Pétursson og félög í hans eigu eiga stærstan hlut í MP.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×