Viðskipti innlent

Skýr merki um lækkun íbúðaverðs

101 Skuggahverfi Fasteignaverð lækkaði um 1,7 prósent í júlí. Sérfræðingur segir fyrstu skýru merkin um verðlækkanir á fasteignamarkaði komin fram.
101 Skuggahverfi Fasteignaverð lækkaði um 1,7 prósent í júlí. Sérfræðingur segir fyrstu skýru merkin um verðlækkanir á fasteignamarkaði komin fram.

Velta á fasteignamarkaði hefur dregist saman um sextíu og fimm prósent á átta mánuðum. Veltan nam tæpum 2,2 milljörðum króna vikuna 11. til 17. júní en var rúmlega 6,1 milljarður vikuna 9. til 15. desember 2005.

Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,7 prósent í júlí síðastliðnum samkvæmt tölum frá Fasteignamati ríkisins. Verð á sérbýli hefur hækkað mest.

Björn Rúnar Guðmundsson, sérfræðingur greiningardeildar Landsbankans, segir þessa þróun ekki koma á óvart. Fram séu komin fyrstu skýru merkin um verðlækkanir á fasteignamarkaði. "Við eigum von á því að þessi þróun haldi áfram. Það verða nokkrar lækkanir, þótt ekkert hrun sé í spilunum."

Hann segist eiga von á samdrætti bæði eftirspurnar og framboðs sem valdi því að smám saman dofnar yfir markaðnum. "Kaupsamningum hefur fækkað snarpt að undanförnu. Bæði er minna framboð af notuðu húsnæði auk þess sem eftirspurn er minni. Ég á jafnvel von á því að framboð nýbygginga dragist saman í kjölfarið."

Á vef greiningardeildar Glitnis kemur fram að mikill þrýstingur sé til lækkunar íbúðaverðs um þessar mundir. Vaxtahækkanir, meiri fjármagnskostnaður auk minni kaupmáttar neytenda hafi dregið úr eftirspurn á íbúðamarkaði. Þá hafi framboð á nýbyggingum aukist talsvert á sama tíma. Greiningardeild Glitnis reiknar með fimm til tíu prósenta lækkun á nafnverði íbúðaverðs næstu tvö árin.

Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, segir sína tilfinningu að verð á leiguhúsnæði hafi hækkað um tuttugu til þrjátíu prósent síðan í vor. Hann segir eftirspurn eftir leiguhúsnæði jafnframt hafa aukist og að erfiðara sé fyrir leigjendur að finna húsnæði en áður. "Þetta er ekki lengur leigjendamarkaður. Verðið hefur hækkað talsvert eftir að aðgangur að fjármagni til húsnæðiskaupa varð erfiðari."

Sigurður telur þó mikilvægt að leigjendur taki ekki mark á tröllasögum sem ganga um verð á leiguhúsnæði. "Fjölmiðlar eiga það til að blása upp undantekningartilvik um gríðarháa leigu. Þannig verða til tröllasögur sem valda jafnvel verðhækkunum á endanum."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×