Skoðun

Heimsóknarbann: Austurríska leiðin

Heimilisofbeldi er samfélagsmein, sem erfitt hefur reynst að uppræta. Kemur þar margt til. Hér er um kynbundið ofbeldi að ræða, sem á sér stað innan veggja heimilisins, sem ætti að vera griðastaður. Þó flestir séu sammála um að verkefnið sem við blasir sé að komast fyrir rætur ofbeldisins og uppræta það úr hegðunarmynstri þeirra sem beita því þá hefur miðað afar hægt. Þau félagslegu úrræði sem gætu tekist á við vandann hafa verið fá og þau úrræði sem lög hafa látið okkur í té hafa reynst haldlítil. Er þar átt við ákvæði um nálgunarbann, sem ekki hefur reynst það tæki í baráttunni sem vænst hafði verið.

Nágrannaþjóðir okkar á Norðurlöndunum hafa í auknum mæli verið að breyta lagaákvæðum um nálgunarbann, til að reyna að ná betri árangri. Aðferðin sem beitt hefur verið er rakin til Austurríkis, en 1997 voru fest í lög þar ákvæði sem heimiluðu lögreglu að fjarlægja ofbeldismann af heimili sínu og banna heimsóknir hans á heimilið og í nánasta umhverfi í tíu daga til þrjá mánuði. Markmiðið var að vernda fórnarlömb ofbeldisins en jafnframt að ná ofbeldismanninum út af heimilinu, sem gæfi þá möguleika á að ná til hans í umhverfi sem hvetti hann til að takast á við ofbeldishneigð sína. Fram að þessu höfðu Austurríkismenn staðið frammi fyrir stöðugri fjölgun kvennaathvarfa, sem gerðu konur og börn að flóttafólki í eigin landi, á meðan ofbeldismennirnir hreiðruðu áfram um sig á heimilinu, að því er virtist lausir allra mála. Að frumkvæði frjálsra félagasamtaka, sem unnu gegn ofbeldi gegn konum, tókst að búa til sterka samstöðu milli stjórnmálamanna og lögreglu um að fara þessa nýju leið og nú hefur hún breiðst út um Evrópu.

Í tilefni af þeirri umræðu sem nú fer fram á síðum Fréttablaðsins tel ég rétt að vekja athygli á frumvarpi um Austurrísku leiðina sem við þingmenn Vinstri-grænna höfum í þrígang lagt fram á Alþingi og munum leggja fram enn á ný í haust. Við teljum frumvarpið vera lið í margháttuðum breytingum, sem nauðsynlegt er að eigi sér stað svo uppræta megi kynbundið ofbeldi á Íslandi.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×