Viðskipti erlent

Vaxtahækkun á evrusvæðinu

Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans.
Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans. Mynd/AP

Jean-Claude Trichet, bankastjóri evrópska seðlabankans, er sagður ýja að frekari hækkun stýrivaxta á evrusvæðinu í viðtali við ítalska vikublaðið L'Espresso, sem kemur út á morgun.

Trichet segir bankann fylgjast grannt með verðbólguþróun innan aðildarríkja myntbandalags Evrópusambandsins og muni bankinn grípa til frekari aðgerða til að sporna gegn því að verðbólga raski stöðugleikanum.

Seðlabanki Evrópu hefur hækkað stýrivexti sína fjórum sinnum frá því í desember á síðasta ári, um 25 punkta í hvert sinn, og standa vextirnir á evrusvæðinu í þremur prósentum. Fjármálaskýrendur túlka orð Trichets sem svo að bankinn muni hækka stýrivexti sína á ný um fjórðung úr prósenti að loknum vaxtaákvörðunarfundi bankastjórnarinnar í næsta mánuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×