Viðskipti innlent

Kippur í krónubréf

Talsverður kippur hefur komið í útgáfu krónubréfa á síðustu mánuðum og hafa alls verið gefin út krónubréf fyrir 45 milljarða króna frá því um miðjan júlí. Í gær og í fyrradag bættist enn við útgáfuna þegar KFW, Deutsche Bank og Rabobank gáfu út bréf fyrir alls 11 milljarða til eins til tveggja ára.

Heildarútgáfa krónubréfa frá upphafi nemur nú 280 milljörðum króna. Í Morgunkorni Glitnis segir að þetta sé þó ekki lýsandi fyrir heildarstöðu erlendra fjárfesta í krónubréfum. Krónubréf fyrir fjörutíu milljarða króna séu á gjalddaga í mánuðinum en fyrsti gjalddagi krónubréfa er í dag, föstudag, alls fyrir þrjátíu milljarða. Útistandandi krónubréf í lok mánaðarins verða því 240 milljarðar króna verði ekki um frekari útgáfu að ræða í mánuðinum.

Útgáfa krónubréfa hefur haft töluverð áhrif á gengi krónunnar. Miklar sveiflur hafa verið á gengi hennar að undanförnu sem að hluta til eru reknar til krónubréfanna. Í gær styrktist krónan um tæp 0,6 prósent. Samkvæmt Morgunkorninu er ólíklegt að það megi að öllu leyti rekja til stýrivaxtahækkunarinnar í gær þar sem við henni var búist. Líklegra sé að þessi mikla útgáfa krónubréfa á sé að knýja styrkinguna áfram.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×