Innlent

Gangsett með rafmagni frá háhitasvæðum

Ómar Ragnarsson sjónvarpsfréttamaður
Ómar Ragnarsson sjónvarpsfréttamaður
Ómar Ragnarsson sjónvarpsfréttamaður er hættur að fjalla um umhverfismál í fréttum og ætlar að beita sér fyrir því að Kárahnjúkavirkjun verði ekki sett í gang fyrr en eftir sex ár þegar tekst að útvega rafmagn til þess frá háhitasvæðum á Norðausturlandi. Ómar telur að aldrei muni nást þjóðarsátt um eyðileggingu náttúruverðmæta. Fylgjendur álvers sætti sig ekki við að missa það og erfitt sé að sjá möguleika á annarri þjóðarsátt en hvorutveggja, álveri og Hjalladal.

Hvað telur Ómar að þurfi til? Hugrekki og vilja, það segir hann að sé allt sem þarf. Kostnaðurinn við frestun myndi nema um fimmtán til tuttugu milljörðum króna á ári og væri hlutfallslega minna átak fyrir þjóðina en vegna Eyjagossins á sínum tíma. Þessi kostnaður væri álíka og þjóðin greiðir beint til landbúnaðar.

Hvernig skiptist þessi kostnaður? Ómar telur að fimm til sex milljarðar á ári færu í skaðabætur til Alcoa og þrír milljarðar í kaup til 450 starfsmanna Alcoa.

Hvernig er þetta hugsað? Starfsmennirnir myndu stimpla sig inn og út á vinnuskyldum dögum en þyrftu ekki að vinna í álverinu fyrr en það tæki til starfa. Í frítíma sínum gætu þeir fengið sér aukavinnu við uppbyggingu á þjóðgarði norðan Vatnajökuls, svæði heimsminjaskrár UNESCO á virkjunarsvæðinu og tengda ferðaþjónustu á Austurlandi.

Myndu íbúarnir skaðast fjárhagslega? Nei. Vegna mætingarskyldu myndi þjónusta ekki skerðast og íbúarnir ekki skaðast fjárhagslega, þvert á móti myndu þeir hagnast með nýjum möguleikum til uppbyggingar í tengslum við þjóðgarð og heimsminjasvæði sem sköpuðust. Líklega yrði að reikna með sjö til átta milljarða aukalegum fjármagnskostnaði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×