Innrásin í Írak hefur ekki gert heiminn öruggari og dregið úr hættu af hryðjuverkum. Þvert á móti er beint samhengi milli stríðsins og aukinnar hryðjuverkaógnar í heiminum. Þetta kemur fram í nýrri leyniskýrslu, sem byggir á mati sextán leyniþjónustustofnana bandaríska ríkisins. Niðurstaða skýrslunnar er í hróplegri mótsögn við staðhæfingar George W. Bush Bandaríkjaforseta, sem hefur gjarnan líkt Íraksstríðinu við „víglínuna í stríðinu gegn hryðjuverkum".
Sagt er í skýrslunni að ný kynslóð hryðjuverkamanna, sem tengist hvorki Osama bin Laden né al-Kaída hryðjuverkaneti hans, hafi sprottið upp vegna stríðsins. Þetta er samhljóða opinberri skýrslu leyniþjónustunefndar Bandaríska þingsins, sem var gefin út á miðvikudaginn. Í henni segir að í stað fámennrar klíku Osama bin Laden séu nú til fjölmargar hreyfingar, sem oft eigi lítt sameiginlegt annað en andúð á Vesturlöndum fyrir að ráðast inn í Írak og vegna stefnu þeirra í málefnum Mið-Austurlanda.
New York Times greindi frá leyniskýrslunni í gær og segir að hún styðji við enn aðra skýrslu sama eðlis, en sú var gerð opinber tveimur mánuðum fyrir innrásina í Írak. Í þeirri skýrslu var varað við því að stríðið gæti hlaðið undir „pólitíska íslamstrú" víðs vegar um heiminn og aukið stuðning við hryðjuverk.
Á fimm ára ártíð árásarinnar á Tvíburaturnana, 11. september síðastliðinn, sendi Hvíta húsið frá sér skjöl sem lýstu árangri Bush-stjórnarinnar í baráttu hennar við al-Kaída. Í þeim segir meðal annars: „Eftir árásirnar hinn 11. september eru Bandaríkin og bandamenn þeirra öruggari, en ekki enn örugg með öllu." Einnig má skilja á skjölunum að mikið hafi verið gert til að grafa undan trú manna á lögmæti hryðjuverka.
Blair Jones, talsmaður Hvíta hússins, vildi ekki ræða skýrsluna, en sagði í viðtali við Associated Press að sú mynd sem nú væri dregin upp af henni væri ekki einkennandi fyrir skjalið í heild sinni.