Viðskipti innlent

Straumborg hagnaðist um fimm milljarða

Jón Helgi Guðmundsson Straumborg hagnaðist mikið í fyrra.
Jón Helgi Guðmundsson Straumborg hagnaðist mikið í fyrra.

Fjárfestingafélagið Straumborg, sem er að níu tíundu hluta í eigu Jóns Helga Guðmundssonar í BYKO, skilaði 4.968 milljarða króna hagnaði árið 2005. Hagnaður ársins 2004 var 3.154 milljarðar króna til samanburðar.

Hagnaðurinn er að miklu leyti tilkominn vegna hækkana á hlutabréfaverði í fyrra, einkum gengishækkunar í KB banka. Norvest, dótturfélag Straumborgar, átti um 2,5 prósenta hlut í KB banka um síðustu áramót en bankinn hækkaði um 68 prósent í fyrra.

Eignir Norvest-samstæðunnar námu 17,6 milljörðum króna í árslok, eigið fé var rúmir 9,7 milljarðar og eiginfjárhlutfall því 55,4 prósent.

Straumborg á um 22 prósenta hlut í Norvik, eignarhaldsfélagi BYKO-samstæðunnar, sem hagnaðist um 563 milljónir króna á síðasta ári samanborið við 537 milljónir árið 2004. Fjármunatekjur námu tæpum 1,1 milljarði en fjármagnsgjöld um 531 milljón. Jón Helgi var stærsti hluthafi Norvikur í árslok með 48 prósenta hlut.

Eignir Norvikur voru 10.623 milljónir króna í árslok, þar af voru eignarhlutir í dótturfélögum metnir á 7,4 milljarða. Eigið fé var á sama tíma 3.385 milljónir króna og lækkaði um 542 milljónir króna vegna uppskiptingar félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×