Viðskipti innlent

iSEC verður First North

Um áramótin, þegar samruninn við OMX gengur í garð, verður einnig nafni iSEC, hlutabréfamarkaðar Kauphallarinnar fyrir smá og millistór fyrirtæki, breytt og hann fær heitið First North. First North er annar stærsti evrópski hlutabréfamarkaðurinn fyrir smá og millistór fyrirtæki hvað fjölda fyrirtækja varðar. Þórður Friðjónsson forstjóri Kauphallarinnar segir ástæðuna fyrir breytingunni fyrst og fremst vera þá að OMX sé með sambærilega First North markaði, eða markaðstorg á hinum Norðurlöndunum. "Við viljum fella íslenska markaðinn undir það heiti og teljum það einfaldlega markaðnum til góðs að tilheyra stærri fjölskyldu.

Við ætlum hins vegar ekki að breyta viðskiptahugmyndinni í sjálfu sér, en hún er ekki alveg sambærileg í öllum atriðum við hina First North markaðina þótt ekki muni þar miklu, auk þess sem reyndar er líka munur á milli Norðurlandanna líka. En við ætlum að reyna til þrautar þá uppbyggingu markaðarins sem lagt var upp með," segir Þórður og bendir á að mikil fjölgun fyrirtækja sé á First North mörkuðunum. "Ég er staðfastlega þeirrar trúar að við eigum eftir að sjá þann markað lifna vel við." Sem stendur er einungis eitt fyrirtæki, Hampiðjan, skráð á iSEC markaðinn, en hann var gangsettur fyrr á árinu. Þórður segir að smám saman verði trúlega aukin samræming meðal allra First North markaðanna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×