Viðskipti innlent

Verðbréfasjóður KB banka sýndi yfir 500% ávöxtun.

Sjóður á vegum bankans hefur sýnt 500 prósenta ávöxtun á fimm árum.
Sjóður á vegum bankans hefur sýnt 500 prósenta ávöxtun á fimm árum.

Verðbréfasjóður á vegum KB banka, Kaupthing IF Icelandic Equity, er í flokki þeirra erlendu verðbréfasjóða sem hafa sýnt mestu ávöxtun á undanförnum fimm árum. Þetta kemur fram í samantekt Standard & Poor"s sem Daily Telegraph birtir.

Rússneskir verðbréfasjóðir skipa níu af tíu efstu sætunum á lista S&P en Kaupþingssjóðurinn situr í því sjötta. Sjóðurinn er stílaður almennt inn á evrópska fjárfesta og hefur haft það viðmið að fjárfesta í Úrvalsvísitölunni. Hefur hann gefið um 557 prósenta ávöxtun á fimm árum þegar reiknað er með áhrifum gengisbreytinga. Ávöxtun sjóðsins sýnir það fyrst og fremst hvað íslenski hlutabréfamarkaðurinn hefur gert það gott á liðnum árum, segir Þórarinn Sveinsson, framkvæmdastjóri eignastýringar KB banka við Fréttablaðið.

Rússnesku sjóðirnir hafa notið góðs af fjárfestingum í olíufyrirtækjum og hráefnisframleiðendum en hrávöruverð hefur hækkað mikið á liðnum árum. Efstur á lista S&P er Prosperity Quest Power, rússneskur verðbréfasjóður, sem hefur fimmtánfaldast á fimm árum. Sá sem keypti í sjóðnum fyrir eitt þúsund sterlingspund (130.000 kr.) fyrir fimm árum síðan á nú um 16.259 pund (um 2,2 milljónir kr.).






Fleiri fréttir

Sjá meira


×