Viðskipti innlent

Fons selur hlut sinn í FlyMe

Pálmi Haraldsson. Fjárfestingarfélag í eigu Pálma hefur selt alla hluti sína í sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe.
Pálmi Haraldsson. Fjárfestingarfélag í eigu Pálma hefur selt alla hluti sína í sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe. MYND/Vilhelm

Fons eignarhaldsfélag, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, hefur selt rúman tuttugu prósenta hlut sinn í sænska lággjaldaflugfélaginu FlyMe til norska hlutafélagsins Cognation, sem eftir kaupin á 36 prósent í flugfélaginu.

Pálmi segir hluthafa hafa greint á um stefnu í félaginu. „Flugrekstrardeild FlyMe var stærsta vandamál félagsins að okkar mati og við höfum viljað leggja hana niður,“ segir hann en bætir við að Fons hafi haft mikla trú á FlyMe, sem skilaði 632 milljóna króna tapi á fyrsta ársfjórðungi, að mestu vegna aukins kostnaðar í flugrekstri.

Nokkrar breytingar þóttu nauðsynlegar til að bæta rekstur félagsins, að mati Pálma. Meðal annars með kaupum á litháenska flugfélaginu FlyLal og breska leiguflugfélaginu Astreus.

En sættir náðust ekki. „Það urðu átök á milli þessara tveggja hluthafa. Við vildum kaupa þá út en þeir vildu ekki selja. Niðurstaðan varð sú að þeir gerðu okkur tilboð sem við gátum ekki hafnað,“ segir Pálmi. Kaupverð er trúnaðarmál en Pálmi staðfestir að Fons hafi hagnast á viðskiptunum.

Pálmi vildi ekkert gefa upp um næst skref hjá Fons. Tækifærin væru mýmörg á sviði ferðaþjónustu og smásölu í Skandinavíu og Bretlandi og myndi félagið halda áfram að einbeita sér að þeim. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×