Viðskipti innlent

Lendingin verður mismjúk

Rýnt í efnahagshorfurnar Greiningardeild KB banka kynnti í gær sýn sína á þróun efnahagsmála á næstu misserum.
Rýnt í efnahagshorfurnar Greiningardeild KB banka kynnti í gær sýn sína á þróun efnahagsmála á næstu misserum.

Lending hagkerfisins eftir hagvaxtarskeið síðustu þriggja ára verður nokkuð mjúk. Íbúar höfuðborgarsvæðisins munu þó finna meira fyrir áhrifum samdráttar í landsframleiðslunni en aðrir landsbúar sökum þess að þjónustugeirinn mun finna töluvert fyrir minni neyslu. Því má búast við því að framboð á störfum á höfuðborgarsvæðinu minnki töluvert. Þetta er meðal þess sem fram kom á morgunverðarfundi Greiningardeildar KB banka í gærmorgun þar sem hagspá og sýn deildarinnar á þróun efnahagsmála á næstu misserum voru kynntar.

Í spánni er gert ráð fyrir að þjóðarútgjöld muni dragast verulega saman á næstu tveimur árum. 0,2 prósenta samdráttur verði á landsframleiðslu á næsta ári en hagvöxtur upp á 3,1 prósent árið 2008. Í máli Ásgeirs Jónssonar, forstöðumanns Greiningardeildar KB banka, kom fram að það sýni sveigjanleika íslenska hagkerfisins, sem hefur vaxið um tuttugu prósent á síðustu þremur árum, að áhrifin verði ekki meiri eftir svo mikinn vöxt.

Greiningardeildin spáir því að verðbólga muni verða í kringum átta prósent í ár og ganga svo hratt niður á næsta ári. Lækkandi olíuverð, kólnun á fasteignamarkaði og samdráttur í þjóðarútgjöldum munu stuðli að þessu, auk þess sem innflutningur á erlendu vinnuafli heldur launaskriði í skefjum.

Viðskiptahallinn, sem spáð er að verði um átján prósent af landsframleiðslunni í ár, mun minnka hratt og mælast 8,5 prósent á næsta ári og í kringum þrjú prósent árið 2008.

Mesti óvissuþátturinn í spánni er þróun gengis íslensku krónunnar. Er gert ráð fyrir að hún muni haldast nokkuð sterk næstu mánuði en allar líkur séu á að hún muni taka dýfu innan tólf mánaða. Dýpt hagsveiflunnar muni að verulegu leyti ráðast af gengisþróun krónunnar sem hefur úrslitaáhrif á væntingar, verðbólgu og vaxtaaðhald.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×