Innlent

Tólf ráðnir til bráðabirgða

Tólf starfsmenn hafa verið ráðnir til bráðabirgða við embætti sýslumanns á Keflavíkurflugvelli vegna brottfarar Bandaríkjahers. Brottför hermannanna kallaði á aukna gæslu á varnarsvæðinu og brá sýslumaður á það ráð að auka mannskapinn á Keflavíkurflugvelli vegna þess. Enn hefur ekki verið ákveðið hvernig ýmis verkefni sem áður voru í höndum Bandaríkjamanna dreifast á íslensk embætti.

Við erum með hundrað og sextíu fastráðna starfsmenn þannig að hlutfallslega er þetta ekki mikil aukning,“ segir Jóhann Benediktsson, sýslumaður á Keflavíkurflugvelli. „Auðvitað hefur þetta í för með sér ákveðna breytingu á okkar verkefnum en á móti kemur að það er verið að sameina lögregluna í Keflavík og á Keflavíkurflugvelli. Að því leyti fellur brottför hersins saman við heildarendurskoðun á starfseminni hérna.“

Hann segir helstu breytingarnar vera ákveðna þætti í öryggismálum sem fari á íslenskar hendur nú þegar Bandaríkjamenn eru farnir. „Sú umræða mun fyrst eiga sér stað í ráðuneytum og á Alþingi áður en lengra er haldið.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×