Menning

Ríkidæmi dregur úr lestri

Lesið fyrir krakka í ísaksskóla  á árlegri ritsmiðja barna Herdís Egilsdóttir kennari fylgist með Fífu Eik 11 ára lesa eigin sögu fyrir bekkinn sinn.
Lesið fyrir krakka í ísaksskóla á árlegri ritsmiðja barna Herdís Egilsdóttir kennari fylgist með Fífu Eik 11 ára lesa eigin sögu fyrir bekkinn sinn.

Ráðstefna í gær á vegum menntamálaráðuneytis og hagsmunaaðila í bókaútgáfu og bóksölu skerpti enn á staðreyndum varðandi lestur barna og unglinga hér á landi. Ólíkt því sem spámenn hafa kyrjað á vefsíðum er lestur bóka enn tímafrekur í lífi barna á Íslandi. Enn eru ekki skýr merki um að bóklestur sé undan að láta.

Tvær kynningar voru meginefni ráðstefnunnar: Ragnar F. Ólafsson og Almar M. Halldórsson lögðu þar fram athugun á lesskilningi og íslenskukunnáttu fimmtán ára barna sem byggði á rannsókninni sem kennd er við PISA og samræmdum prófum í 10. bekk (árgangi 1993) og 4. og 7. bekk frá 1996. PISA-rannsóknin var samanburðarrannsókn sem náði til 31 lands.

Samræmd próf leiða í ljós að lesskilningur er mjög stöðugur. Lestur sem áhugamál pólast: fjórðungur krakkanna segir lestur sitt helsta áhugamál og fjórðungur lítur á lestur sem tímasóun. Tíundi hver krakki les í meira en klukkustund daglega. Stúlkur hafa mikla yfirburði yfir drengi í lesskilningi, bæði samkvæmt samræmdum prófum og Pisa-rannsókninni og er sá munur með því mesta sem þekkist.

Hér á landi greinast áhrif fjárhags heimila minni hvað varðar áhrif á lesskilning sem er til marks um að menntun er ekki stéttskipt hér á landi enn sem komið er. Aftur hefur virðingarstaða foreldra hér á landi neikvæð áhrif á lesskilning. Börn einstæðra foreldra búa við lítil en jákvæð áhrif á heimilum sínum. Þá er Ísland eina landið þar sem fjöldi systkina á heimili hefur ekki neikvæð áhrif á lesskilning.

Í samantekt sinni vekja málshefjendur athygli á að íslensk börn eru um meðallag í lesskilningi, bæði snemma í grunnskóla og seint. Tíður kvöldlestur kenni börnum að meta lestur.

Menntamálaráðherra setti ráðstefnuna í gær en ekki er vitað hvort hún hlýddi á erindin: henni mun þó vera kunnugt um yfirburði stúlkna í lesskilningi og velllíðan við lok grunnskóla. Sá vitnisburður hlýtur að hafa einhver áhrif í stefnumótun varðandi grunnskólastig. Strákarnir eru undir.

Andrea Gerður Dofradóttir og Kristín Erla Harðardóttir gerðu grein fyrir rannsókn sinni nýrri af nálinni um lestur og viðhorf til lesturs.

Sú rannsókn var unnin í rýnihópum barna. Meðal athyglisverðra niðurstaða þeirra er að börn líta lestur þröngum skilningi: í þeirra hópi er myndasögulestur ekki talinn með og texti í sms er ekki lestur. Lestur er í þeirra huga bundinn við texta af blaði. Krakkar vilja spennusögur, en mörg þeirra lesa dagblöð að staðaldri. Öll höfðu þau búið við að lesið var fyrir þau meðan þau voru ólæs. Þau taka ekki mark á bókaauglýsingum. Lesefni sitt sækja þau á söfn, til vina og í eigin bókaeign. Þau segjast hafa nógan tíma til lesturs.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×