Viðskipti innlent

Tryggingarálag lækkar enn

Tryggingarálag á fimm ára skuldabréf bankanna (CDS) heldur áfram að lækka líkt og þróunin hefur verið síðustu vikur.

Lækkunin fór heldur skarpar af stað hjá Landsbanka Íslands og Glitni í haust en hjá Kaupþingi. Síðan um mánaðamót hefur álagið á bréf Kaupþings hins vegar lækkað hraðar en hjá hinum.

Álagið er mest á bréf Kaupþings, 54 punktar á mánudag, en minnst á bréf Glitnis, 36 punktar. Álagið á skuldabréf Landsbankans er svo 48 punktar.

Ef horft er á breytinguna frá því í lok síðasta mánaðar er hún hins vegar mest hjá Kaupþingi sem 27. september var með 71 punkts álag á skuldabréf sín. Lækkunin nemur því 17 punktum. Til samanburðar hefur tryggingarálag á skuldabréf Glitnis lækkað um 9 punkta á sama tímabili og um 8 punkta á skuldabréf Landsbankans.

Álagið á bréf bankanna er því núna komið undir það sem var áður en umræða erlendra greiningaraðila um íslenskt hagkerfi og aðstæður bankanna fór á flug í upphafi síðasta árs.

Sérfræðingar telja þó ólíklegt að bankarnir nái í bráð jafngóðum kjörum á skuldabréfamarkaði í Evrópu og buðust í fyrra, en gera engu að síður ráð fyrir hægum bata áfram. Talið er að lækkun nýliðinna daga megi að hluta til rekja til vel heppnaðra skuldabréfaútgáfu bankanna á mörkuðum utan Evrópu. Mikil eftirspurn hefur verið eftir bréfum í Bandaríkjunum og nú síðast gaf Kaupþing út skuldabréf í Japan fyrir jafnvirði 29 milljarða króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×