Viðskipti innlent

Velta Eimskips meira en tvöfaldast

Forsvarsmenn Eimskips Baldur Guðnason forstjóri og Magnús Þorsteinsson stjórnarformaður Eimskips.
Forsvarsmenn Eimskips Baldur Guðnason forstjóri og Magnús Þorsteinsson stjórnarformaður Eimskips. MYND/GVA

Reiknað er með að velta Eimskips ríflega tvöfaldist og verði 110 milljarðar króna á næsta ári eftir kaup á kanadíska frystigeymslufyrirtækinu Atlas Cold Storage. Kaupin koma í kjölfar annarra nýlegra kaupa félagsins. Félagið rekur um 150 skip og um þúsund kæligeymslur

Þetta setur Eimskip í forystuhlutverk í þessum iðnaði á heimsvísu, segir Magnús Þorsteinsson, stjórnarformaður Eimskips og bætir við að félagið sé með kaupunum orðið stærsti einstaki rekandi frysti- og kæligeymsla á heimsvísu. Þetta breytir mjög mikið og eykur mjög mikið arðsemismöguleika félagsins í fjölþættri flutningastarfsemi.

 Þetta verður til þess að við getum boðið upp á heimskeðju sem nær allt frá Asíu til Evrópu og Ameríku og eykur mjög okkar möguleika á að þjónusta betur viðskiptavini okkar. Í erlendum miðlum hefur þetta verið kallað seamless operation eða hnökralaus þjónusta, segir hann og hlær.

Kaupin hafa vakið mikla athygli í Kanada og fjallað um þau í fréttum allt þar til Avion setti í gang yfirtökuferlið í ágúst. Þegar svona yfirtaka fer í gang er tefld ákveðin refskák, sem endaði með því að við náðum okkar markmiði, að kaupa þetta félag á ágætu verði, segir Magnús og bætir við að nýjum eigendum hafi verið tekið mjög vel í Kanada og aðkomu þeirra fagnað.

Samkomulagið um yfirtökutilboðið náðist í byrjun vikunnar, en Avion Group hækkaði fyrra tilboð sitt í Atlas Cold Storage úr sjö kan­adískum dölum á hlut í 7,50 dali á hlut. Heildarvirði félagsins er um 583 milljónir kanadískra dala eða tæpir 35 milljarðar íslenskra króna. Stjórn Atlas Cold Storage mælir einróma með því að hluthafar taki tilboðinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×