Sport

Róbert og Wetzlar enn án sigurs

Róbert Sighvatsson og lærisveinar hans í þýska úrvalsdeildarliðinu Wetzlar eru enn án sigurs eftir níu umferðir og sitja á botni deildarinnar. Í gær tapaði liðið fyrir Göppingen á útivelli en Jaliesky Garcia lék ekki með síðarnefnda liðinu þar sem hann á við meiðsli að stríða.

Lemgo er í þriðja sæti deildarinnar eftir 35-30 sigur á Melsungen. Logi Geirsson skoraði átta mörk fyrir Lemgo og Ásgeir Örn Hallgrímsson skoraði tvö mörk. Minden vann dýrmætan sigur á Wilhelmshavener, 22-21, í botnbaráttu deildarinnar og var það aðeins annar sigur liðsins á leiktíðinni. Snorri Steinn Guðjónsson skoraði fimm mörk fyrir Minden og Einar Örn Jónsson gerði þrjú en alls skoruðu aðeins fimm leikmenn liðsins mörk í leiknum. Gylfi Gylfason skoraði eitt mark fyrir Wilhelmshavener en bæði liðin eru á svipuðum slóðum í deildinni.

Einar Hólmgeirsson og Alexander Petersson voru í essinu sínu í gær er lið þeirra, Grosswallstadt, vann góðan útisigur á Nordhorn, 26-25. Einar skoraði fjögur mörk og Alexander þrjú.

Birkir Ívar Guðmundsson var að venju á milli stanganna hjá Lübbecke en liðið tapaði sínum áttunda leik af níu alls í vetur í gær, í þetta sinn fyrir Kronau/Östringen. Leiknum lauk með 28-23 sigri heimamanna en gamli félagi Birkis hjá Haukum og núverandi samherji í Lübbecke, Þórir Ólafsson, komst ekki á blað í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×